154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:30]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mörgum ráðherrum hefur verið tíðrætt um hin mörgu tæki sem Seðlabankinn hefur yfir að ráða til að berjast við verðbólguna. Af hverju er hann ekki að beita neinum af þessum tækjum? Af hverju hefur hann ekki gert neitt til þess að minnka peningamagn í umferð? Það kom t.d. fram við þriggja mánaða uppgjör hjá Landsbankanum á þessu ári að á einu ári höfðu útlán aukist um 12 milljarða. Það er peningaprentun, ekkert annað, og eykur peningamagn í umferð. Auk þess skulum við bara átta okkur á því að tölurnar tala sínu máli um hagnað þessara fyrirtækja. Hv. þingmaður skal ekki halda það að bankarnir séu ekki ánægðir með það fjárstreymi sem er inn til þeirra núna. Það er algjört partí hjá bönkunum. Tölurnar segja það sem þarf að segja um hagnað alls konar fyrirtækja, stórfyrirtækja, á þessu ári. Ég ætla ekki að fara að nefna nein nöfn en þau eru þarna.

Svo er annað: Hvað annað á að gera? Ég hef ekki setið við stjórnborðið öll þessi ár — ég er alla vega búin að nefna þetta með peningamagn í umferð — en það að vita ekki hvað annað eigi að gera er versta ástæða í heimi fyrir því að gera eitthvað. Það er bara eins og læknar á miðöldum sem vissu ekki hvað þeir áttu að gera þannig að þeir drógu bara blóð og drápu sjúklinginn. Það er bara það sama sem Seðlabankinn er að gera núna. Þar að auki hefur komið fram, kom fram hjá seðlabankastjóra Evrópu fyrr í þessu ferli, að samsetning þessarar verðbólgu sé þess eðlis að hún myndi hverfa þó að seðlabankar myndu ekki hækka vexti. Þeir eru samt flestir að hækka vexti en enginn, ekki einn einasti seðlabanki hefur gert það með jafn grófum hætti og Seðlabanki Íslands. Og það sést enginn árangur af því. Þetta er það versta sem hægt er að gera. Það verður bara að finna aðrar leiðir eða jafnvel bara að sætta okkur við að leyfa þessu að líða hjá frekar en að fara gegn heimilunum með þessum hætti.